Félag Stjúpfjölskyldna Símaráðgjöf 6929101

Félag Stjúpfjölskyldna hefur verið starfrækt síðan 2005. Félagið stendur m.a. fyrir ýmsum uppákomum, fyrirlestrum, námskeiðum fyrir fólk í stjúptengslum. Félagsgjald er 3.000 kr.

Ganga í félagið:

Punktar fyrir stjúpbörn

1.    Vandamál fullorðinna eru ekki þér að kenna
2.    Ef þú vonast til að foreldrar þínir taki saman að nýju, þá ert þú ekki einn um það
3.    Hvað ef þér líkar ekki við stjúpforeldri þitt?
4.    Talaðu um það sem angrar þig
5.    Þú getur hjálpað

1.    Vandamál fullorðinna eru ekki þér að kenna
·      Mörg börn kenna sér um að foreldrar þeirra ákváðu að skilja.
·      Stundum heyrðu þau foreldra sína rífast um peninga, tiltekt og ýmislegt annað sem þau gátu ekki komið sér saman um.
·      Börn halda þess vegna að ef þau hefðu verið duglegri að laga til eða ekki beðið svona oft um peninga þá væri allt gott milli pabba og mömmu.
·      Ef þú hugsar þannig, mundu þá að þú átt engan þátt í skilnaði foreldra þinna. Þú hefur enga stjórn á tilfinningum foreldra þinna eða hvernig þeim kemur saman fyrir eða eftir skilnaðinn.
·      Skilnaður foreldra þinna er ekki þér að kenna!

2.    Ef þú vonast til að foreldrar þínir taki saman að nýju, þá ert þú ekki einn um það

·      Flest börn vona að pabbi og mamma þeirra taki saman aftur og allt verði eins og áður en þau skildu. Það gerist þó sjaldnast. Þeim kom ekki vel saman áður en þau skildu og þá er ólíklegt að
       þeim komi nógu vel saman núna til að búa saman aftur.

·      Ef þú ert í þessum sporum, hafðu í huga að þú ert það dýrmætasta sem pabbi þinn og mamma eiga. Það breytist ekkert þó að þau vilji ekki búa lengur saman.
       Mundu að þau eiga þig saman og þér má þykja jafn vænt um báða foreldra þína, alveg sama hvar þeir eiga heima.  

3.    Hvað ef þér líkar ekki við stjúpforeldri þitt? 
·      Stjúpforeldri er fólkið sem pabbi eða mamma giftist eða býr með eftir skilnaðinn.
·      Sum börn þora varla að láta sér líka vel við stjúpforeldri sitt, því að þá finnst þeim þau vera að svíkja mömmu eða pabba.
       En þér má alveg líka við stjúpforeldri þitt og þú ert ekki að svíkja pabba eða mömmu. Það er svo miklu notalegra að kunna vel við fólk en að kunna illa við það.

·      Öðrum börnum líkar alls ekki við stjúpforeldra sína og veistu hvað? Það er líka allt í lagi! En þú verður að koma fram við stjúpforeldri þitt eins og annað fólk og vera kurteis.
       Komdu fram við stjúpforeldri þitt eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Þér líður sjálfum betur ef þú gerir það J.

·      Þér þarf heldur ekki að líka við stjúpsystkini þín, en stjúpsystkini eru börn stjúpforeldri þíns. Þau eiga samt skilið kurteisi og virðingu. Þau eru í sömu sporum og þú.

4.    Talaðu um það sem angrar þig 
·        Láttu vita ef eitthvað angrar þig! Sum börn þora ekki að tala um það sem amar að, því að þau eru hrædd um að pabbi, mamma eða stjúpforeldrið verði reitt eða þau fái ekki að hitta foreldrið sem þau búa ekki hjá. 
·        Taktu áhættuna á því að segja hvernig þér líður, því að venjulega vill fullorðna fólkið gera allt sem það getur til að börnunum líði vel. Til þess verður fullorðna fólkið að vita hvað er að. Annars er ekki hægt að laga hlutina.
·        Það er leiðinlegt ef fullorðna fólkið reiðist en þú getur ekki ráðið því hvernig það bregst við, bara hvernig þú segir hlutina.
·        Reyndu að tala um það sem angrar þig án þess að hrópa og öskra. Byrjaðu á því að biðja þann sem þú þarft að tala við þig um tíma með þér og láttu vita að þú þurfir að ræða alvarlega við hann.
·        Vertu eins skýr og róleg(ur) og þú getur. Það hjálpar að horfa í augun á þeim sem maður er að tala við.
·        Þú getur til dæmis beðið pabba eða mömmu - eða þann sem þú vilt tala við -  að koma með þér í göngutúr eða bíltúr ef þú vilt vera í friði. Það má líka loka sig af inni í herbergi og ræða málin.
·        Best er að reyna að tala saman. Ef þér finnst það allt of erfitt má líka skrifa bréf til þess sem þú vilt tala við og rétta honum. Margir krakkar eru flinkir á tölvur og geta sent netpóst og aðrir kunna á MSN.
·        Aðalatriðið er að tala við einhvern sem þú treystir og nota þá aðferð sem þér finnst best!
·        Stundum er hægt að laga það sem angrar mann og stundum ekki. En það hjálpar þó oft að tala út um hlutina.

5.    Þú getur haft áhrif
·        Það skiptir máli hvað þú segir og gerir, hvort sem það er í skólanum, með vinum þínum eða með fólkinu sem þú býrð oftast með eða bara stundum. Ef við erum kurteis og berum virðingu fyrir hvort öðru líður öllum miklu betur. 
·        Ef við sýnum dónaskap og komum ekki fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur líður flestum illa, líka okkur sjálfum.  
·        Stjúpforeldri þínu er ekki sama hvað þér finnst um það og langar því til að ykkur komi vel saman. 
·        Hvort sem þér líkar við stjúpforeldrið eða ekki, þá kostar það ekkert að gefa því tækifæri. Flestum börnum líkar illa við miklar breytingar og í stjúpfjölskyldum er margt sem þarf að venjast.  
·        Þú ert hluti af stjúpfjölskyldu og það þurfa allir að leggja sig fram, að minnsta kosti gefa hlutunum tækifæri til að láta þá ganga upp. Þegar vel gengur líður öllum betur sjálfum og með hvert annað.

Einstaklings-, para- og fjölskylduráðgjöf

Til að panta einstaklings-, para - eða fjölskylduráðgjöf má senda tölvupóst á stjuptengsl@stjuptengsl.is eða hringja í síma 6929101. Gera má ráð fyrir að paratími taki 1,15 klukkustund í fyrstu. Öll ráðgjöf fer fram í trúnaði.  Greiða þarf fyrir þessi viðtöl. Flest stéttarfélög greiða niður námskeið og viðtöl fyrir félagsmenn sína gegn framvísin kvittana. 

Félag stjúpfjölskyldna veitir ókeypis símaráðgjöf í síma 6929101 eða 5880850. Velferðarráðuneytið styrkir félagið.

 

 

 

 

Spurning dagsins

Hvar fréttir þú af síðunni