Félag Stjúpfjölskyldna Símaráðgjöf 6929101

Félag Stjúpfjölskyldna hefur verið starfrækt síðan 2005. Félagið stendur m.a. fyrir ýmsum uppákomum, fyrirlestrum, námskeiðum fyrir fólk í stjúptengslum. Félagsgjald er 3.000 kr.

Ganga í félagið:

Af hverju Stjuptengsl.is

Almennt liggur bjartsýni, eftirvænting og góður vilji til grundvallar stjúpfjölskyldum. Nú á að láta hlutina takast! Samt heppnast það bara í fjórum tilfellum af tíu. En þannig þarf það ekki að vera!

Stjúpfjölskyldur virðast í fljótu bragði ekkert frábrugðnar fjölskyldum þar sem makarnir eiga öll börnin saman. Af hverju ættu þær þá ekki að haga sér sem slíkar? Hvers vegna þarf að fjalla sérstaklega um þær?

Stjúpfjölskyldan er stofnuð á grunni annarrar fjölskyldu eða fjölskyldna, venjulega í kjölfar skilnaðar eða andláts. Sorg barna vegna skilnaðar foreldra og von þeirra um að þeir taki saman að nýju verður oft til þess að þau viðurkenna ekki stjúpforeldri í fyrstu. Auk þess eru fyrrverandi makar oft ekki búnir að gera upp sín mál, sem veldur togstreitu og átökum, einnig í nýja sambandinu. Átti menn sig ekki á sérstöðu stjúpfjölskyldunnar er hætt við höfnunartilfinningu, reiði og vonbrigðum.

Staðreyndin er sú að engar fjölskyldur eru lausar við vandamál. Aftur á móti er engin nauðsyn að ala á þeim. Að kasta sér út í djúpu laugina, án kunnáttu og með óraunhæfar væntingar um að sömu “sundtökin” dugi óháð fjölskyldugerð, verður hæglega uppspretta vandamála, sem getur reynst erfitt að bregðast við hjálparlaust. Með réttu “sundtökunum” er hins vegar hægt að ná landi. Stjúpfjölskyldur fara fram á opna og fordómalausa umræðu, viðurkenningu og fræðslu.

Stjuptengsl.is er tilraun til að svara þeirri þörf!