Félag Stjúpfjölskyldna Símaráðgjöf 6929101

Félag Stjúpfjölskyldna hefur verið starfrækt síðan 2005. Félagið stendur m.a. fyrir ýmsum uppákomum, fyrirlestrum, námskeiðum fyrir fólk í stjúptengslum. Félagsgjald er 3.000 kr.

Ganga í félagið:

Ávarp Dr. Sigrúnar Júlíusdóttur

Kæru fundargestir,  til hamingju með  þennan áfanga! 

Stofnun Félags stjúpfjölskyldna er sögulegur viðburður í málefnum  fjölskyldna á Íslandi. Þegar ég lít  nánar í söguspegilinn rifjast það upp að líklega eru nú  um 30 ár liðin síðan ég vann með fyrstu íslensku stjúpfjölskyldunni.  Á þeim tíma var engin almenn fjölskylduráðgjöf í boði hér á landi og þetta var fólk, par um fertugt, sem sneri sér til mín  inn á göngudeild Kleppsspítalans. Þau sneru sér ekki þangað af því að þau væru að fást við geðræna erfiðleika eða af því þau  óttuðust að stefna geðheilsu sinni í hættu með því að stofna til stjúptengsla heldur af því að það var í fá önnur hús að venda og þeim var svo mikið í mun að vanda sig og standa vel að málum. Þau sögðust vilja nýta sér nútíma þekkingu um tjáskipti í fjölskyldum. Þau höfðu séð viðtal við mig í blaði þar sem ég ræddi um þetta þá alveg nýja hugtak í íslensku máli: tjáskipti. Það hafði vakið mikla kátínu hjá flestum, jafnvel svo að fólk sló sér á lær og kútveltist um af hlátri yfir þessu skoplega orði, hvort þetta hefði eitthvað með moss-kerfið að gera ? Skipti ! !  En aðrir stoppuðu við og tengdu það við góð og gild samskipti - og það höfðu þau gert. Annað sem mér er minnisstætt frá þessu upphafi er að það þurfti að finna út úr því hvort og þá hvernig ætti að skrá málið -   því enginn var  jú  geðveikur, enginn sjúklingur  – og engin var díagnósan!

Þetta par vildi fá  aðstoð, en ekki síður leiðbeiningar og lesefni. Mig minnir þau hafi komið í tvö skipti og það þriðja nokkru seinna sem eftirfylgd. Það var líka nýtt  hugtak á íslensku sem  gantast var með og haft á orði hvort þetta væru einhvers konar eftirmálar eða hefði eitthvað með líkfylgd að gera !  

 Nokkrum árum  seinna, fyrir 1980, þegar ég var í framhaldsnámi í fjölskyldumeðferð í USA man ég að  þessi reynsla  mín af fyrstu   stjúptengslaráðgjöfinni á Íslandi smellpassaði við áherslurnar þar í landi. Í náminu var okkur kennt að stjúpfjölskyldur  ættu í  fremur afmörkuðum, auðskilgreinanlegum vanda og nýttu sér  vel hugræna nálgun og  fræðslu.  Stjúpfjölskyldur væru öðrum fjölskyldum samvinnufúsari. Meðferðarhorfur væru því mjög góðar  og örfáir tímar gætu skilað  góðum árangri. Með þetta hugarfar og talsvert af nýrri þekkingu í farteskinu var það talsverð eftirvænting að koma heim og hefjast handa,  og en þar beið nokkuð annar veruleiki. Stjúpfjölskyldur voru vissulega til en þær voru ósýnilegar og ekki til umræðu.

 Uppúr 1980  höfðum við nokkrir þerapistar í “geðgeiranum” þreyst á spítala- og sjúdómsmiðun í meðferðarstafinu og ákváðum að  stofna ráðgjafarþjónustuna Tengsl, líklega  með þeim fyrstu á Íslandi, til þess að geta boðið almenningi uppá fjölskyldufræðslu, ráðgjöf og meðferð.   Liður í því skyldi vera að  bjóða námskeið fyrir stjúpforeldra. Fyrsta námskeiðið var auglýst í Morgunblaðinu, líklega  um 1985.  Verður að segjast eins og er að það voru mikil vonbrigði þegar við áttuðum okkur á að  þörfin var fyrir hendi en samt var námskeiðahald  greinilega alls ekki tímabært.  Viðbrögðin létu nefnilega ekki á sér standa því það hringdu  nokkrir tugir, aðallega konur. Þær vildu fá upplýsingar og ábendingar,  vildu ræða málin en aðeins  í síma. Þær myndu etv. skrá sig síðar í námskeið, ef þær gætu komið einar ?  Við höfðum hins vegar sett skilyrði um að parið kæmi saman, en ekki bara stjúpmæður. Á endanum  fengum við tvö pör á samráðsfund ! Þau mættu, fyrst afar hikandi en svo  opnuðust gáttirnar og enginn endir var á umræðuefnum og tjáningaþörf- við  ætluðum hreinlega aldrei að losna við þau !  Hins vegar höfðu þau ekki hug á að taka þátt í stærri samtals-  og fræðsluhópi  að svo komnu máli. Hópstarf  með stjúpfjölskyldum var ekki tímabært,  en á þeim tíma höfðum við þegar  góða reynslu af slíku starfi með foreldrum sem  nýlega höfðu farið í gegnum skilnað.  Árin liðu.

 Í félagsráðgjafarnámi  var frá upphafi áhersla á að kenna um stjúptengsl, hópstarf og fjölskyldufræðslu. Um 1990 var sá kennsluþáttur efldur, ekki síst meðferðarþátturinn.   Á þessum tíma hafði skilnðartíðnin náð hámarki frá áttunda áratugnum og má segja að myndun stjúpfjölskyldna hafi þá verið eðlilegt framhald og fjölgun þeirra orðin áþreifanleg.   Þannig varð sífellt algengara að  stjúpfjölskyldur leituðu með sín mál á stofur,  en lítið gekk   að opna upp málin í samfélagsumræðunni. Fólk virtist enn ekki vilja  gangast við  “barninu”.

 En svo kom að því að  meðal áhugasamra nemanda   í fjölskyldunámskeiðinu á 4.ári í félagsráðgjöf 1997 var nemandi sem sýndi málefnum stjúpfjölskyldna sérstakan áhuga og hreif hann fleiri með sér í vinnuhóp.  Mér til   óblandinnar ánægju  vildi hann og  félagar fá að vinna fræðsluefni og gera kynningarbækling  fyrir stjúpfjölskyldur í staðinn  fyrir hefðbundið rannsóknarverkefni.  Hér var komin Valgerður Halldórsdóttir, tilbúin að taka við  boltanum, bretta upp ermum  og  fylgja málum eftir. Hún hefur ekki látið deigann síga í þessu málefni síðan  og loksins komst samfélagsumræða af stað. Þið sem eruð hér vitið framhaldið:  vefurinn góði komst á laggirnar maí 2004 og nú félag !  Það sem einu sinni hefur verið opnað lokast ekki aftur. Nú getur þróunin aðeins  orðið   framávið í átt að meiri opnun, fordómum verði rutt úr vegi og stjúpfjölskyldur öðlist styrka stöðu meðal annarra,  gamalla og nýrra fjölskyldugerða. Stjúpfjölskyldur hafa alltaf verið til og munu verða meðan menn byggja jörð 

Það verður spennandi að vinna með Félagi stjúpfjölskyldna  og ég óska þessu félaginu gæfu og gengis í öllu sínu starfi, parsamböndum og framtíð barna til heilla

.