Félag Stjúpfjölskyldna Símaráðgjöf 6929101

Félag Stjúpfjölskyldna hefur verið starfrækt síðan 2005. Félagið stendur m.a. fyrir ýmsum uppákomum, fyrirlestrum, námskeiðum fyrir fólk í stjúptengslum. Félagsgjald er 3.000 kr.

Ganga í félagið:

Aðalfundur 2006

Félag stjúpfjölskyldna var stofnað 24. nóvember 2005 í Lögbergi í Háskóla Íslands og voru stofnfélagar rúmlega 90. Um 30 manns mættu á stofnfundinn og hélt Dr. Sigrún Júlíusdóttir erindi þar sem hún sagði m.a. að stofnun félagsins væri sögulegur viðburður í málefnum fjölskyldna á Íslandi.  Gunnar Hersveinn las upp úr nýútkominni bók sinni, Gæfuspor. Fékk hann góðar viðtökur fundarmanna.Fyrsti stjórnarfundur félagasins var síðan 7. janúar 2006. Fundaði stjórnin í  húsakynnum Stjúptengsla á Merkurgötu 2b, Hafnarfirði, fyrir utan þess síðasta sem haldinn var í Hringsjá.

Eitt af fyrstu verkum nýkjörinnar stjórnar var að skipta með sér verkum,  en formaður hafði verið kosinn á stofnfundi félagsins og er það sá sem hér talar.  Aðrir stjórnarmenn eru Marín Jónasdóttir ritari, Hallfríður Brynjólfsdóttir gjaldkeri, Hjalti Björnsson og Helga Margrét Guðmundsdóttir meðstjórnendur.Varamenn eru Jón Freyr Jóhannsson og Árni Einarsson, skoðunarmenn eru Júlía Sæmundsdóttir og Ólafur G. Gunnarsson.Ákveðið var a sækja um kennitölu fyrir félagið og stofna bankareikning á fyrsta fundi stjórnar. Varð nokkur töf á að það tækist og dróst innheimta félagsgjalda nokkur vegna þess. Þar sem félagið átti litla peninga var ákveðið að reyna innheimta þau með því að senda stofnfélögum tölvupóst með upplýsingum um reikningsnúmer. Sú aðferð gafst illa og var síðar ákveðið að senda gíróseðla. Gafst sú aðferð mun betur.

 
Stuðningur við félagið

Fyrir stofnfund hafði tilvonandi formaður sent beiðni um fjárstuðning til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fékk væntanlegt félag 30 þúsund króna styrk frá Hafnarfjarðarbæ. Fyrirtækið Bakkurs styrkti stofnfund félagsins með veitingum. Landsbanki Íslands veitti 100 þúsund króna styrk og Ingibjörg Stefánsdóttir, Mávanesi 24, 210 Garðabæ styrkti félagið um 10 þúsund krónur.  Félagsráðgjafaskor Háskóla Íslands aðstoðaði við við að útvega fundaaðstöðu fyrir stofnfund félagsins í HÍ. Marín Jónasdóttir ritari og framkvæmdastjóri Hringsjár tryggði okkur húsnæði félaginu að kostnaðarlaus fyrir félagsfundi – og hefur þessi aðstaða verið okkur ómetanleg.  Kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir.

Stjórn félagsins ákvað að fara hægt af stað á fyrsta starfsári. og vera með litla sem enga yfirbyggingu og nýta þær bjargir sem stjórnin býr yfir. Ákveðið var að hafa fræðslufundi einu sinni í mánuði kl. 17.15 til 18.45  annan fimmtudag í mánuði.  Björk Erlendsdóttir félagsráðgjafi og stofnfélagi hélt fyrsta fræðslufund félagsins og fjallaði hann um börn í stjúpfjölskyldum, Júlía Sæmundsdóttir félagsráðgjafanemi var jafnframt með framsögu á þeim fundi sem uppkomið stjúpbarn.Marín Jónasdóttir uppeldis-og menntunarfærðingur, MA og ritari í stjórn félagsins hélt erindi um stjúpmæður. Var Valgerður Halldórsdóttir með henni á þeim fundi í umræðum.


Ætlunin var að hafa námskeið fyrir stjúpmæður á vorönn en það féll niður vegna ónógrar þátttöku. Ætlunin er að halda slíkt námskeið í febrúar og standa þá mun betur að auglýsingu þess en áður. Skráning er þegar hafin.Þriðja fræðslufundi vorsins var síðan sleppt vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Að loknu sumarfríi stjórnar hófst haustdagskráin á fyrirlestri Valgerðar Halldórsdóttur félagsráðgjafa, MA og formanni félagsins, um fjölskylduþrótt stjúpfjölskyldna.
Síðasti fræðslufundur þessa starfsárs var í höndum Ingibjargar Bjarnadóttur lögmanns hjá Lögsátt og fjallaði um erfðamál í stjúpfjölskyldum

Á fyrsta starfsárinu hafa verið haldnir fimm fræðslufundir og sjö stjórnarfundir á tímabilinu 7. janúar 2006 – 11. nóvember 2006
Ókeypis var inn á alla fræðslufundi félagsins fyrir utan þann síðasta, en þeir sem héldu erindi fram að honum gáfu vinnu sína í þágu hins unga nýstofnaða félags.

Á síðasta stjórnarfundi félagsins þessa starfsárs var tekin sú ákvörðun að félagsmenn fengju frítt inn á almenna fræðslufundi en aðrir greiddu 500 krónur. Jafnframt var sett það viðmið að borga fyrirlesurum taxta Endurmenntunarstofnunar HÍ.
Félagið hefur ekki haldið úti sérstakri heimasíðu en ákveðið var að hafa hnapp á síðunni www.stjuptengsl.is fyrir félagið til að byrja með.

Formaður Félags einstæðra foreldra boðaði formann Félags ábyrgra feðra og formann Félags stjúpfjölskyldna á sinn fund í þeim tilgangi að kanna möguleika á samstarfi þessara félaga varðandi rekstur húsnæðis og skrifstofu. Stjórn Félags stjúpfjölskyldna mat sem svo að ekki væri tímabært fyrir hið unga og nýstofnaða félag að fara út í slíka samvinnu að sinni, heldur væri mikilvægt að það fengi sinn tíma til að þroskast og dafna út frá eigin forsendum. Jafnfram hefði félagið ekki yfir þeim fjármunum að ráða sem þyrfti til standa í slíkum rekstri enn sem komið er.  Þó er ekki útilokað frekar samstarf síðar.

Stjórn félagsins sendi inn eina athugasemd við þingsályktunartillögu um stöðu hjóna og sambúðarfólks (þskj. 69.&#8211 69. mál):

Félag stjúpfjölskyldna
Valgerður Halldórsdóttir
Merkurgötu 2b
220 Hafnarfirði
 
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 &#8211 10
150 REYKJAVÍK
 
EFNI: Þingsályktunartillaga um stöðu hjóna og sambúðarfólks
 
Stjórn Félags stjúpfjölskyldna telur tillögu til þingsályktunar um stöðu hjóna og sambúðarfólks (þskj. 69 &#8211 69. mál) áríðandi, en leyfir sér skv. Erindi félagsmálanefndar Alþingis dags. 5. apríl sl. um umsögn um tillöguna að gera eftirfarandi athugasemdir:
 
Stjúpfjölskyldur eru nánast ósýnilegar í opinberum gögnum og sérstaða þeirra vill gleymast við athuganir eins og þá sem að er stefnt með umræddri
þingsályktunartillögu. Því er almennt lagt til að stjúpfjölskyldna sé getið í tillögunni, t.a.m. með eftirgreindum hætti:
 
Nefndin kanni einnig hvernig styrkja megi stöðu hjóna og sambúðarfólks, bæði svonefndra kjarnafjölskyldna og stjúpfjölskyldna, í framangreindu tillit.
 
Erlendar rannsóknir sýna að skilnaðartíðni er mun meiri í stjúpfjölskyldum, þar sem hjón eða sambúðarfólk eiga börn af fyrri samböndum, en í kjarnafjölskyldum, þar sem kynforeldrar barnanna búa saman. Jafnframt sýna tölur frá Bretlandi að
stjúpfjölskyldur séu almennt stærri en aðrar fjölskyldugerðir. Sambærilegar tölur eru ekki til hér á landi.
 
Ástæða er til að kanna skilnaðartíðni stjúpfjölskyldna á Íslandi og hvort efnahagsleg staða hafi áhrif á hana.
 
Fulltrúar Félags stjúpfjölskyldna lýsa sig reiðubúna til að veita frekari upplýsingar ef þurfa þykir og koma á fund félagsmálanefndar ef þess er óskað.
 
Hafnarfirði, 17. apríl 2006
Valgerður Halldórsdóttir,
formaður Félags stjúpfjölskyldna
 
Félagið fékk töluverða fjölmiðlakynningu í útvarpi, stjónvarpi og dagblöðum á árinu og er nokkuð ljóst að það er að festa sig í sessi í huga almennings.  Formaður skrifaði eina greina undir merkjum félagsins um meðlög og stjúpfjölskyldur í Fréttablaðið í september sl. Greinina er einnig að finna á heimasíðunni stjuptengsl.is Fyrirspurnir hafa borist formanni um stofnun undirfélaga á landsbyggðinni og er ætlunin að fara í frekari útrás á næsta ári.

Stjórnin var endurkosin einróma en í stað Árna Einarssonar varamanns kemur inn Ágúst Ásgeirsson og í stað Ólafs G.Gunnarssonar skoðunarmanns kemur inn Ingibjörg Stefánsdóttir.Fyrir hönd stjórnar þakka ég ánægjulegt og gefandi samstarf og stuðning þeirra sem komið hafa að stofnun félagsins og lagt því lið á þessu starfsári. Jafnframt þökkum við samstarf við fráfarandi varamann og skoðunarmann.
Reykjavík 11.11.2006

Valgerður Halldórsdóttir formaður Félags stjúpfjölskyldna